Við erum Silja María & Ársæll Örn Kjartansbörn


01.05.2008 14:20

Silja María orðin stóra frænka


Erla og Teddi eignuðust litla prinsessu þann 30. apríl. Sú stutta var ekki að láta bíða eftir sér og kom á settum degi . Öllum heilsast vel og kemur litla fjölskyldan heim í dag. Ég veit að Silja María á eftir að vilja kyssa litlu frænku vel og knúsa hana í klessu hehehe.. Við óskum Erlu og Tedda innilega til hamingju .

Þau verða með heimasíðu en hún er ekki alveg tilbúin enn þá. Set link á hana þegar ég má heheh...

Set svo inn mynd af prinsessunni, líklega í kvöld eða á morgun...

14.04.2008 20:17

Af klósettferðum og herbergismálum


Silja María er farin að láta okkur stundum vita þegar hún þarf að pissa. Við höfum ekkert verið að þjálfa hana en henni finnst klósettið mjög spennandi. Við keyptum Dórusetu í USA og finnst Silju hún vera mjög flott ;O). Við erum búin að setja hana nokkrum sinnum á klósettið en hún hefur bara tvisvar sinnum pissað. En þetta kemur bara með tímanum og á örugglega ekki eftir að vera vandamál miðað við hvað hún er spennt fyrir þessu.

Silja María er nýbyrjuð á því að vilja sjá í bleyjuna þegar hún er búin að kúka. Ég var nú ekkert allt of til í að sýna henni bleyjuna og sagði bara að þetta væri ullabjakk og hún ætti ekkert að sjá þetta. Þegar ég var búin að skipta á henni og var að setja kúkableyjun í poka segir Silja "Oj  skítur"  og bendir á bleyjuna hehehe.... Í kvöld bað hún svo aftur um að sjá bleyjuna og ákvað pabbi hennar að sýna henni kúkinn . Hún lítur í bleyjuna og eina sem heyrist frá henni er "Úff" heheh...

Það er þegar orðið ljóst hver stjórnar heimilinu. Silja er farin að siða okkur foreldrana til. Hún bannaði pabba sínum að vera úti á sokkunum um daginn og svo segir hún mjög ákveðin og bendir á okkur "Mamma, má ekki kasta" eða "Pabbi, má ekki ýta" og svo frv.

Þá erum við loksins búin að taka herbergið hennar Silju Maríu í gegn. Hún fékk nýtt rúm í fyrirfram afmælisgjöf frá ömmum sínum og öfum og við keyptum eitt og annað sem vantaði í herbergið hennar. Við ákváðum svo að mála tvo veggi græna og fá smá lit í herbergið. Silja er mjög dugleg að sofa í rúminu sínu og hefur það ekki verið neitt vandamál þó að hún geti farið sjálf fram úr. Fyrsta kvöldið kom hún nokkrum sinnum fram en var þó alltaf til í að fara inn í rúm aftur. Næsta kvöld fór hún tvisvar fram úr en var bara inni hjá sér að leika . Síðan þá hefur hún ekkert komið fram. Þegar hún fer í rúmið lesum við annað hvort fyrir hana eða að hún fær að skoða bækur í hálftíma og svo fer hún bara að sofa. Algjört draumabarn hehehe...

Nýtt myndaalbúm komið inn. Það er samt eitthvað vesen í gangi og það eiga að vera 80 myndir í albúminu en það koma bara 30 myndir inn. Læt vita þegar það kemst í lag....

24.03.2008 21:55

Páskahelgi



Allt gott að frétta af fjölskyldunni. Við erum búin að hafa það mjög gott um páskana. Fórum í fermingu á skírdag, upp í bústað á föstudaginn langa og vorum þar í góðu yfirlæti með ömmu Lellu og afa Billa fram á laugardag. Þá fórum við á Þingvelli til Herborgar og Bjössa og gistum þar eina nótt. Allir fengu páskaegg og fullt af góðum mat. Silja María og Inga Bríet voru rosa góðar að leika sér saman og Silja var einkar hrifin af Björnssyni ;O). Á Páskadag fórum við aftur í bæinn til ömmu Maju og afa Rúnars og vorum þar í mat ásamt restinni af fjölskyldunni. Spiluðum fram eftir og Silja María gisti hjá ömmu og afa.

Nýtt myndaalbúm komið inn...

Bless í bili..

17.03.2008 21:42

Leikskólastelpa

Það er að frétta að Silja María er búin að vera í aðlögun á leikskólanum Urðarhóli. Hún byrjaði á þriðjudag í síðustu viku en var svo veik á miðvikudag og fimmtudag. Hún mætti aftur á föstudag og sagði við mig þegar við keyrðum upp að leikskólanum "vei mamma vei" . Ég mætti svo með hana í morgun og hún arkaði þarna um eins og hún hefði hvergi annars staðar verið. Deildin hennar heitir Skýjahóll og vill svo til að Iðunn Ösp sem var með henni hjá Boggu dagmömmu er á sömu deild. Í dag vorum við í ávaxtastund, íþróttum og útiveru. Amma Lella kom svo og sótti skvísuna svo að ég gæti farið í vinnuna. Á morgun á hún að vera án foreldra til hádegis og held ég að það eigi eftir að ganga vel.
 
Við fengum aðeins pláss til 14:30 til að byrja með en vonandi á það eftir að breytast fjótlega. Amma Lella ætlar að reyna að aðstoða okkur og sækja Silju Maríu og vera með hana þangað til foreldranir koma heim úr vinnu.

09.03.2008 15:25

Dásamleg Flórídaferð að baki....



Þá er fjölskyldan í Perlukórnum komin aftur í góða veðrið á Íslandi. Við vorum tvær vikur í kanaveldi ásamt ömmu Lellu og afa Billa og það verður að segjast að þetta sé besta frí sem við höfum farið í. Flogið var til Boston frá Keflavík þar sem snjóstormur tók á móti okkur og á tímabili var tvísýnt um að við myndum lenda. Þetta hafðist nú allt á endum og við eyddum fyrstu nóttinni okkar vel þreytt á Hilton hótelinu á flugvellinum í Boston. Silja María var rosalega dugleg í flugvélinni - eiginlega of dugleg, því hún fór ekki að sofa fyrr en vélin lenti, okkur foreldrunum til mikillar gleði og hamingju.

Daginn eftir var flogið til Orlando og gekk sú flugferð rosalega vel. Silja svaf alla leiðina í fanginu á mömmu sinni og vildi ekki taka það í mál þegar við reyndum að skipta.

Í Orlando gistum við á The Florida Mall hotel. Það var ekkert rosalega leiðinlegt að hafa verslunarmiðstöð á jarðhæð og mældum við gangana alla dagana sem við vorum þar.

Við fluttum svo í einbýlishúsið okkar. Með sex svefnherbergjum, sundlaug, pool borði ofl  það var æðislegt!

Fórum í Disney World, Universal, outlettin og minigolf... og gerðum þessa almennu túristahluti (drukkum bjór og lágum í sólbaði).

Myndirnar eru komnar inn og tala sínu máli.

16.02.2008 23:22

Púsluspil....

Kjartan er búinn að eignast nokkra nýja vini í stjórnsýslunni í Kópavogi, en hann er búinn að hringja daglega í bæði yfirmenn dagmæðra og innritunarfulltrúana og miðað við hvernig gengur að koma Silju Maríu að, þá er ekki líklegt að hann fari á jólakortalistann hjá öðrum hvorum þeirra. Við erum búin að tala við Helgu Margréti sem sér um leikskólamál í Kópavogi og segir hún að lítið sé hægt að gera fyrir okkur og finnst okkur það ferlega fúlt. Það er skrítið að ekki sé til neitt "backup" þegar svona mál kemur upp. Við erum einnig búin að senda bréf til yfirmanns hennar og hann segist vera að kíkja á málið, hvað sem það þýðir.

Þá er komið að því að púsla saman næstu viku. Síðasta vika gekk bara ágætlega fyrir sig. Allir eru búnir að vera rosalega hjálpsamir að passa Silju Maríu. Erla frænka tók hálfan dag, svo fór hún upp í bústað með ömmu Lellu og afa Billa í tvo daga og Óskar frændi og Kristín tóku einn dag. En auðvitað gengur þetta ekki til lengdar og við verðum að fá lausn á okkar málum.
Þá er bara að koma saman næstu viku en svo erum við að fara út. Þegar við komum heim kemur í ljós hvort annað okkar verði bara að hætta að vinna???

Á mánudaginn ætlum við og aðrir foreldara sem voru með börn hjá Boggu erum svo að fara að hitta Gunnar bæjarstjóra á mánudag til að fá eitthvað gert í okkar málum og þá kemur svo sannarlega í ljós hvort það sé gott að búa í Kópavogi .

10.02.2008 13:07

Fréttir....



Silja María hefur alltaf verið hörð af sér og vælir ekki að ástæðulausu. Hún er lítið fyrir að láta hugga sig ef hún meiðir sig, hún vill láta kyssa á báttið og þá er allt búið. Núna hefur hún tekið upp á því að peppa sjálfa sig upp. Þegar hún meiðir sig segir hún við sjálfa sig "allt búið, allt búið, allt búið" og hættir að gráta. Svo þegar hún er í baði og ég ætla að fara að skola sjampóið úr hárinu á henni með sturtuhausnum þá stendur hún í miðju baðinu, horfir niður og segir "dugleg, dugleg, dugleg" á meðan ég skola .

Það er mikið sport að tala í símann núna og getur hún blaðrað eins og mesta kjaftakelling. Þegar síminn hringir vill hún tala alveg sama hver er á línunni.

Það er líka voða spennandi að liggja í baðinu og busla. Þá fara eyrun á kaf og hún heyrir ekkert sem maður er að segja við hana. Svo reynir hún að tala við mann og talar þá rosa hátt, frekar fyndið....

Nýjar myndir komnar í myndaalbúm...

08.02.2008 19:37

Leiðinlegar fréttir...


Við fengum þær leiðinlegu fréttir í gærkvöldi að dagmamman hennar Silju, hún Bogga, er mikið veik og verður frá í einhvern tíma. Það lítur út fyrir að Silja María fari ekki til hennar aftur en við vonum að hún fái flýtimeðferð að komast inn á leikskóla. Silja María veit auðvitað ekkert hvað er að gerast og talaði hún nokkrum sinnum um það í dag að fara til Boggu og leika við Össur, Styrmi, Iðunni og Kristínu.

Við óskum Boggu góðs bata og vonum að hún nái sér sem fyrst.....

30.01.2008 23:35

Loksins loksins......




Þá er síðan hennar Silju komin aftur í gang eftir mánaðar pásu . Við erum búin að breyta um "look" eins og glöggir lesendur síðunnar taka eflaust eftir og búin að uppfæra flesta flokka hér að ofan. Svo ætlum við að gera einhverja nýja og sniðuga flokka og eru hugmyndir vel þegnar en við lumum á einhverju skemmtilegu í pokahorninu. Þá ætlum við að reyna að vera duglegri að blogga oftar og setja oftar inn myndir .

Annars er allt gott að frétta af öllum fjölskyldumeðlimum. Silja María er orðin rosalega dugleg að bjarga sér sjálf og liggur ekki á skoðunum sínum. Hún talar rosalega mikið og skilst svona flest sem hún reynir að koma okkur í skilning um.

Silja María er komin með uppáhalds lag og það er "Take on me" með A-ha. Henni finnst skemmtilegast þegar það er spilað í bílnum og pabbi hennar syngur með (og helst  þá háunóturnar). Við köllum það bílalagið.

Silja María kemst líklega ekki inn á leikskóla fyrr en næsta haust og verður hún þá að nálgast 2½ árs . Vonandi verður það samt fyrr.

Fjölskyldan ætlar svo að skella sér í snemmbúið sumarfrí til Flórída ásamt ömmu Lellu og afa Billa.

Jæja þetta er nóg í bili en eins og ég var búin að segja ætlum við að reyna að vera duglegri í fréttaflutningi.....

Þrjú ný myndaalbúm komin inn...

31.12.2007 19:43

Gleðilegt ár allir ;)



Vildi bara óska öllum gleðilegs árs og vonandi hittumst við hress og kát á nýju ári .

p.s. mamma er búin að setja inn jólamyndir....

13.12.2007 20:50

Fréttir af familíunni...

Silja María er aftur orðin lasin en að þessu sinni er það ælupest. Hún ældi nokkrum sinnum í gærkvöldi og í nótt en er búin að vera aðeins betri í dag. Vonandi er þetta að ganga yfir. Eins og flestir vita skrapp ég til Boston í nokkra daga með Erlu. Það var rosa gaman og var mjög mikið verslað hehehhe.... Kjartan var heima með skvísuna og náði að koma fullt af hlutum í verk, m.a. að setja upp dimmera í alla íbúðina, setja upp ljós og fl. Kannski ég ætti að skreppa oftar til Boston .

Er búin að setja inn nýtt myndaalbúm. Þar má finna myndir af Silju Maríu þar sem hún var að jafna sig á augnsýkingunni, úr íþróttaskólanum, með gamla dótakassa frá pabba sínum og fl.

24.11.2007 17:14

Til hamingju pabbi :)

Hann pabbi minn á afmæli í dag og langar mig að óska honum innilega til hamingju með daginn. Ég og mamma bökuðum súkkulaðiköku handa honum í tilefni dagsins.

Knús og kossar

Silja María
Flettingar í dag: 63
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 13
Gestir í gær: 6
Samtals flettingar: 45665
Samtals gestir: 13514
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 06:56:47


Um mig

Nafn:

Silja María & Ársæll Örn

Afmælisdagur:

12. maí 2006 og 13. apríl 2009

Faðir:

Kjartan Ársælsson

Móðir:

Kristín Ósk Rúnarsdóttir

Um:

Draumabörn í alla staði

Tenglar

Eldra efni